Viðskipti erlent

Kröfuhafar Landsbankans á Guernsey fá 25% í ágúst

Þeir sparifjáreigendur sem áttu innistæður hjá Landsbankanum á Guernsey munu fá 25% af þeim borgaðar út í ágúst n.k. Þetta kemur fram í frétt á BBC en fólkið hefur þegar fengið 30% af fé sínu endurgreitt.

Deloitte and Touche sem annast stjórn bankans sendu frá sér tilkynningu á föstudag þar sem fram kemur að þeir reikni með að endanleg greiðsla til sparifjáreigendanna muni nema á bilinu 68% til 89%. Þetta er þó háð því hve vel gengur að innheimta lán bankans í framtíðinni.

Alls áttu yfir 2.000 manns innistæður í bankanum þegar hann fór í þrot s.l. haust og nam heildarupphæðin rúmlega 117 milljónum punda eða rúmlega 22 milljörðum kr.

Hópar sparifjáreigenda í bankanum hafa barist fyrir því að fá fé sitt endurgreitt eftir að bankinn komst í þrot. Í skýrslu breskra stjórnvalda frá í apríl segir hinsvegar að íbúar á Guernsey og sparifjáreigendur á öðrum svæðum sem ekki heyra beint undir bresku krúnuna eigi ekki rétt á bótum frá stjórnvöldum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×