Handbolti

Guðjón Valur: Þýðir ekkert annað en að vinna Makedóníu

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Guðjón Valur.
Guðjón Valur. Mynd/Arnþór
Guðjón Valur Sigurðsson var upplitsdjarfur eftir jafnteflið við Norðmenn og er strax kominn með hugann við stórleikinn á 17. júní.

"Þetta er það sem við fengum út úr þessu í dag.Ég er virkilega ánægður með viljann, baráttuna og samstöðuna í liðinu en auðvitað vildum við fá bæði stigin en það þýðir þá ekkert annað en að vinna Makedóníu á miðvikudaginn," sagði Guðjón Valur eftir leikinn.

"Við töpum og vinnum saman. Það er ekki hægt að hengja þetta á einn frekar en annan. Þetta er hópíþrótt og við vinnum saman og töpum saman. Við erum lið og vinnum saman og töpum saman. Það er ákvörðun þjálfarans hver spilar. Mér er alveg saman hver er góður og hver er lélegur svo framarlega sem við vinnum."

"Varnarleikurinn var mjög góður fyrsta korterið en eftir það fannst mér hann detta niður. Við erum að etja við rosalegan línummann sem virðist fá að leika sér aðeins meira en okkar línumenn allavega."

Ísland er þremur stigum á undan Makedóníu fyrir leik liðanna á miðvikudaginn sem veitir ákveðið svigrúm fyrir þann leik en þannig vill Guðjón Valur ekki nálgast leikinn.

"Við ákváðum fyrir leikina að spá sem minnst í stöðuna í riðlinum. Þetta er klisja en við hugsum bara um næsta leik og við ætlum að vinna hann. Við förum ekki inn í leikinn gegn Makedóníu með þá hugsun að jafntefli dugir. Þessi leikur er á 17. júní og þetta eru skemmtilegustu leikirnir fyrir okkur alla síðustu árin. Ég vona að fólk fjölmenni og fylli Höllina. Það kemur ekkert annað til greina að vinna leikinn. við komum til með að taka á því að berjast til síðasta manns líkt og í dag og náum vonandi í bæði stigin," sagði Guðjón Valur að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×