Viðskipti erlent

Danir hætta við neyðaraðstoð til Lettlands

Danski seðlabankinn, Nationalbanken, hefur ákveðið að framlengja ekki gjaldmiðlaskipasamningi sínum við Lettland sem hefur veitt Lettlandi mikilvæga neyðaraðstoð í formi aðgengis að evrum í skiptum fyrir lats. Um er að ræða samskonar samning og Ísland hefur við seðlabanka í þremur Norðurlandanna.

Í frétt um málið á vefsíðunni business.dk segir að sænski seðlabankinn, Riksbanken, hafi hinsvegar framlengt sínum gjaldmiðlaskiptasamningi við Lettland en hann hljóðar upp á 500 milljónir evra sem er sama upphæð og í samningi Riksbanken við Seðlabanka Íslands.

Danski samningurinn við Lettland var smærri í sniðum eða upp á 125 milljónir evra. Samkvæmt frétt business.dk ætlar Nationalbanken að bíða eftir skýrslu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum áður en afstaða verður tekin til þess að gera nýjan samning við Lettland.

Lettar eiga í gífurlegum efnahagserfiðleikum þessa stundina og dróst landsframleiðsla þeirra saman um 18% á fyrsta ársfjórðungi ársins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×