Viðskipti erlent

Prófessor: Nokkur Evrópuríki í hættu á íslensku hruni

Bandaríski hagfræðingurinn Kenneth Rogoff, fyrrum forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS), segir að nokkur Evrópuríki séu í hættu á að lenda í íslensku hruni ef þeim tekst ekki að skera niður fjárlög sín til lengri tíma litið. Auk þess þurfi löndin að komast í gegnum tímabil með litlum hagvexti samhliða þessum niðurskurði.

Löndin sem hér um ræðir eru Írland, Grikkland, Spánn, Portúgal og Ítalía. Þetta kemur fram í viðtali við Rogoff á vefsíðunni di.se. „Við horfum fram á bráðnun á hægum hraða," segir Rogoff.

Sem kunnugt er af fréttum hefur ESB þrýst á Íra að taka tilboði sambandsins um neyðaraðstoð. BBC segir að samningsviðræður um slíkt séu þegar hafnar.

Þá greinir börsen.dk frá því að seinna í dag muni Grikkir sennilega lenda í skuldaáfalli þegar uppfærðar tölur um fjárlagahalla landsins árið 2009 verða gerðar opinberar. Flestir telja að tölurnar sýni muni verri stöðu en þær sem grísk stjórnvöld hafa þegar gefið út.

Rogoff segir að það séu ekki bara Írar sem þurfi neyðaraðstoð. Að öllum líkindum muni Spánn, Portúgal og Rúmenía einnig þurfa á slíkri aðstoð að halda.

„Næsta stigið í þessari þróun verður að við sjáum fleiri lönd leita til AGS og ESB um aðstoð við skuldavanda sinn," segir Rogoff.

Fram kemur á vefsíðunni að líklega hafi neyðaraðstoðin við Grikkland síðasta vetur verið upphafið að slæmri keðjuverkun fyrir evrópskar fjárfestingar. Ástandið á Írlandi sé svo neistinn sem gæti kveikt á niðursveiflu í öllu evrópska hagkerfinu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×