Viðskipti erlent

Eik Bank í Danmörku seldur innan mánaðar

Eik Bank í Danmörku, dótturfélag Eik Banki í Færeyjum, verður seldur innan mánaðar. Kaupendur skortir ekki því 20 slíkir hafa sýnt því áhuga að kaupa Eik Bank.

Þetta kemur fram á business.dk þar sem rætt er við Steen Parsholt sem stjórnar bankanum nú en Eik Bank er í eigu bankasýslu Danmerkur eftir að dönsk og færeysk stjórnvöld yfirtóku Eik Banki fyrr í haust.

Parsholt segir að hinir áhugasömu kaupendur séu einkum danskir bankar en erlendir bankar séu einnig í hópnum. Eik Bank í Danmörku er netbanki og viðskiptavinirnir eru um 70.000 talsins.

Hinir áhugasömu kaupendur hafa fengið sendar upplýsingar um starfsemi Eik Bank og eiga að leggja fram tilboð á grundvelli þeirra á næstunni. Þeir sem eiga hæstu boðin fá svo frekari aðgang að bókhaldsgögnum Eik Bank áður en lokatilboð verða sett fram.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×