Viðskipti erlent

Íslenskt eignarhald olli FIH bankanum miklum búsifjum

Íslenskt eignarhald á danska FIH bankanum olli honum miklum búsifjum síðustu tólf mánuðina, að því er fram kemur í dönskum fjölmiðlum í dag.

Í umfjöllun Jyllands Posten um söluna segir að eignarhald skilanefndar Kaupþings, og óbeint eignarhald Seðlabanka Íslands, hafi valdið FIH bakanum alvarlegum vandamálum.

Bent er á að á liðnum 12 mánuðum hafi innlán í bankann minnkað um 33 milljarða danskra króna eða hátt í 700 milljarða króna vegna óvissunnar um framtíð bankans.

Innlánin fóru á þessu tímabili úr 42 milljörðum danskra króna og niður í 9 milljarða. Þetta þýddi að FIH bankinn var kominn með innlánahalla upp á 52 milljarða danskra króna eða vel yfir 1.000 milljarða króna.

Fram kom í fréttum í gær að tveir af stærstu lífeyrissjóðum Danmerkur, ATP og PFA, hafi keypt bankann ásamt sænska tryggingarfélaginu Folksam og fjárfestinum Christian Dyvig.

Innifalið í kaupunum mun vera að ATP veiti bankanum lánalínu upp á 10 milljarða danskra króna.

Danskir fjölmiðlar segja að salan á bankanum sé góð langtímalausn á vandamálum hans en bankinn er sá sjötti stærsti í Danmerku.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×