Viðskipti erlent

Hells Angels í mál við tískuhúsið Alexander McQueen

Mótorhjólagengið Hells Angels hefur höfðað mál í Kaliforníu gegn tískuhúsinu Alexander McQueen. Hells Angels ákæra tískuhúsið fyrir að hafa misnotað vörumerki sitt, hauskúpu með vængjum.

Í frétt um málið í Financial Times segir að Hells Angels Motorcycle Corporation (HAMC) haldi því fram í ákæru sinni að Alexander McQueen, sem er í eigu PPR í Frakklandi, hafi brotið gegn einkarétti Hells Angels á þessu vörumerki.

Málið snýst um svokallaðan „Hell´s Knuckle Duster" hring úr bæði gulli og silfri sem Alexander McQueen framleiðir og selur en á honum er hið umdeilda merki til staðar. Einnig er hægt að fá handtösku með merkinu, kjól og silkihálsklút. Taskan er seld á 2,329 dollara en kjóllinn á 1.595 dollara.

Hells Angels hafa ekki aðeins kært tískuhúsið heldur einnig lúxusverslunarkeðjuna Saks og netbúðina Zippo en báðir þessir aðilar selja hinar umdeildu vörur.

Í ákærunni segir að Hells Angels hafi notað bæði nafn sitt og merkið frá árinu 1948 og að réttindi til þeirra séu einkaleyfisvernduð.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×