Viðskipti erlent

Ofsahræðsla meðal fjárfesta vegna stöðu Grikklands

Mikil ofsahræðsla greip um sig meðal fjárfesta á alþjóðamörkuðum í gærdag vegna stöðunnar í Grikklandi. Vextir á 2ja ára ríkisskuldabréfum Grikkja fóru yfir 10% og vextir á bréfum til 10 ár fóru yfir 9%. Fáir fást til að kaupa þessi bréf en allir vilja kaupa tryggingar á þau.

Fréttir um að fjárlagahallinn í Grikklandi væri meir en stjórnvöld höfðu áætlað bætti ekki stöðuna. Hallinn er 13,6% en áætlunin gerði ráð fyrir 12,9% halla. Raunar telur ESB að hallinn sé öfugu meginn við 14% í augnablikinu að því er segir í fréttum erlendra fjölmiðla.

Matsfyrirtækið Moody´s lækkaði lánshæfiseinkunn Grikklands úr A2 og í A3 þegar upplýsingar um fjárlagahallann lágu fyrir. Einkunnin er með neikvæðum horfum.

Skuldatryggingaálagið á ríkissjóð Grikklands snarhækkaði í gær og stendur nú í tæplega 650 punktum. Er Grikkland komið í þriðja sætið á lista þjóða í mestri hættu á gjaldþroti. Samkvæmt gagnaveitunni CMA eru líkurnar á þjóðargjaldþroti Grikklands nú metnar á rúmlega 41%.

Viðræður standa nú yfir milli fulltrúa frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS), ESB og grískra stjórnvalda um aðgerðir til að komast hjá greiðslufalli gríska ríkisins á skuldum sínum. Grikkir þurfa að borga rúmlega 8 milljarða evra í næsta mánuði og rúmlega 28 milljarða evra fyrir árslok 2011. Rætt er um að AGS og ESB leggi landinu til allt að 45 milljarða evra. Talið er að samingaviðræður mun standa a.m.k. næstu tvær vikurnar og jafnvel lengur.

Samkvæmt frétt á börsen.dk í morgun er gríska ástandið nú að byrja að smita út frá sér til Portúgal sem einnig glímir við mikinn skuldavanda. Vextir á ríkisskuldabréfum Portúgal til 10 ára hafa hækkað töluvert í morgun og nálgast nú 5% markið.

Þá hefur gengi evrunnar gefið verulega eftir að undanföru og hefur ekki verið lægra gangvart dollaranum síðan í fyrravor.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×