Viðskipti erlent

Tíundi hver banki vestan hafs í vandræðum

Tíundi hver banki í Bandaríkjum er í fjárhagsvandræðum. Þetta sýna tölur úr uppgjörum í bandaríska bankakerfinu fyrir fyrsta ársfjórðung þessa árs.

Fjallað er um málið í Dagens Industri en þar segir að samkvæmt Þessum tölum séu vandamál bandaríska bankakerfisins langr frá því að vera leyst. Tölurnar sýna m.a. að heildarfjöldi þeirra útlána sem ekki hefur verið borgað af í þrjá mánuði eða lengur heldur áfram að aukast. Fjöldi útlána í vanskilum hefur nú aukist milli mánaða sextán mánuði í röð.

Þeir bankar sem hér um ræðir eru allir komnir á lista Tryggingarsjóðs innistæðna í Bandaríkjunum (FDIC) yfir banka í vandræðum. Forstjóri FDIC, Sheila Blair segir í samtali við Wall Street Journal að bankarnir séu enn með mörg óleyst vandamál í bókum sínum og ekki sé hægt að líta framhjá þeirri staðreynd að enn er mikill óróleiki á fjármálamörkuðum heimsins.

Um síðustu áramót voru samtals 702 bankar í Bandaríkjunum á fyrrgreindum lista FDIC. Til samanburðar var fjöldi þeirra á listanum 252 árið 2008.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×