Viðskipti erlent

EQT missti af lestinni í Pandóru veislunni dönsku

Hætt er við að stjórnendur sænska fjárfestingarsjóðsins EQT séu með rauð eyru þessa dagana. Danskir fjölmiðlar hafa rifjað það upp að árið 2008 hafði EQT nær lokið við að kaupa meirihlutann í skartgripaframleiðandanum Pandóru en hættu við á síðustu stundu. Í staðinn seldi EQT alla forvinnu sína við kaupin til fjárfestingarsjóðsins Axcel.

Eins og fram hefur komið í fréttum gæti Axcel, og þeir sem fjárfestu í sjóðnum, hagnast um allt að 20 milljarða danskra kr. eða um 400 milljarða kr. á nýlegri markaðsskráningu Pandóru. Þar á meðal er FIH bankinn danski og fyrrum eigendur hans, skilanefnd Kaupþings og Seðlabanki Íslands. Munu íslensku aðilarnir fá allt að 20 milljörðum kr. aukalega út úr sölunni á FIH vegna góðs gengis Pandóru.

Þegar stjórn EQT hafði unnið lengi að kaupunum á 60% hlut í Pandóru ákvað hún skyndilega að hætta við kaupin. Þá höfðu endurskoðendur, lögmenn og aðrir sérfræðingar unnið að málinu fyrir hönd EQT. Þessi forvinna var síðan seld sem skýrsla til Axcel fyrir 2 milljónir danskra kr.

EQT sjóðurinn, sem er í eigu Wallenberg fjölskyldunnar, var síðast í fréttum hér á landi á síðasta vetri. Á þeim tíma var EQT nefndur til sögunnar sem samstarfsaðili Actavis við tilraun Actavis að kaupa þýska samheitalyfjafyrirtækið Ratiopharm.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×