Viðskipti erlent

Actavis leggur fram lokatilboð í Ratiopharm

Actavis og Teva hafa verið beðin um að leggja fram lokatilboð sín í þýska samheitafyrirtækið Ratiopharm á morgun, fimmtudag, að því er heimildir Reuters herma. Hinsvegar mun bandaríski lyfjarisinn Pfizer leggja fram sitt lokatilboð í dag.

Fram kemur í frétt Reuters að í hinum óformlegu tilboðum sem fyrirtækin þrjú kynntu fyrir stjórn Ratiopharm nýlega hafi Actavis verið með besta tilboðið eða um 3 milljarða evra. Þetta verð er í samræmi við óskir Merckle fjölskyldunnar eigenda Ratiopharm sem vill fá a.m.k. 3 milljarða evra fyrir þessa eign sína.

Áður hefur verið greint frá því að sterkasta tromp Actavis í baráttunni um Ratiopharm er að hið sameinaða fyrirtæki yrði sett á markað á næstu árum. Þetta mun vera hugsunin á bakvið stuðning Deutsche Bank, aðallánadrottna Actavis, við kaupin á þýska samheitalyfjafyrirtækinu. Sameinað Actavis og Ratiopharm yrði þriðja stærsta samheitaleyfjafyrirtæki heimsins.

Ratiopharm skilaði góðu uppgjöri fyrir síðasta ári en hagnaður þess á árinu nam 307 milljónum evra eða tæplega 53 milljörðum kr. fyrir skatta og fjármagnsliði.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×