Handbolti

Umfjöllun: Valur vann í kvöld en er samt úr leik

Elvar Geir Magnússon á Hlíðarenda skrifar
Anna Úrsúla Guðmundsdóttir skoraði fjögur mörk í kvöld.
Anna Úrsúla Guðmundsdóttir skoraði fjögur mörk í kvöld. Mynd/Anton

Valskonur eru úr leik í EHF-bikarkeppninni. Þær unnu seinni leikinn gegn þýska liðinu Oldenburg 28-26 í kvöld en það dugði ekki til.

Fyrri viðureign liðanna fór fram á laugardag og vann þýska liðið þá með ellefu marka mun sem var fullstór biti að kyngja fyrir Hlíðarendaliðið. Oldenburg mallaði í öðrum gír í leiknum í kvöld enda staðan góð eftir fyrri leikinn.

Valur byrjaði leikinn í kvöld af miklum krafti og komst í 7-3 en þá tók Henning Balthazar, þjálfari Oldenburg, leikhlé. Þýska liðið átti í vandræðum með að finna glufur á varnarleik Vals en staðan var 11-9 fyrir Val í hálfleik.

Snemma í seinni hálfleiknum náði Oldenburg að jafna en þá setti Valur aftur í gírinn, tók góða forystu og vann á endanum sigur.

Ljóst var að Valsliðið var ekki að fara að vinna upp þennan mun en fer þó úr þessari viðureign með reisn eftir sigurinn í kvöld. Hrafnhildur Skúladóttir var markahæst í Valsliðinu og átti góðan leik en þá var Anna Úrsúla Guðmundsdóttir mjög öflug og lét finna fyrir sér.

Valur - Oldenburg 28-26 (11-9)

Mörk Vals:
Hrafnhildur Skúladóttir 11/5, Anna Úrsúla Guðmundsdóttir 4, Kristín Guðmundsdóttir 3, Rebekka Skúladóttir 3, Hildigunnur Einarsdóttir 3, Íris Ásta Pétursdóttir 2, Ágústa Edda Björnsdóttir 1.

Varin skot: Guðný Jenný Ásmundsdóttir 12, Sunneva Einarsdóttir 3.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×