Viðskipti erlent

Allt að 600 tonn af kjöti til Japan

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Gert að langreyð í Hvalfirði. Mynd/ afp.
Gert að langreyð í Hvalfirði. Mynd/ afp.
Hvalur hf. hefur flutt á milli 500 - 600 tonn af langreyðakjöti til Japan það sem af er þessu ári. Þetta fullyrðir japanska fréttastofan Kyodo News. Þar er fullyrt að árlega sé markaðssett um 4000 tonn af hrefnukjöti á ári í Japan. Langreyðakjötið frá Íslandi komi til með að hafa áhrif á verðlagið á hvalkjöti á markaðnum.

Kristján Loftsson, forstjóri Hvals, segir í samtali við Kyodo News að það sé ekki ætlunin að reyna að ryðja hrefnukjötinu út af markaðnum í Japan. Hann sé sannfærður um að innflutningurinn á langreyðakjötinu sé til hagsbóta fyrir alla.

Kyodo News segir að Hvalur hafi veitt 148 langreyðar á þessu ári með það að markmiði að markaðssetja kjötið í Japan. Japanir sjálfir hafi hins vegar einungis veitt tvær langreyðar á síðustu tveimur árum.

Kyodo News segir að samkvæmt gögnum frá fjármálaráðuneytinu í Japan hafi 164 tonn af langreyðarkjötinu frá Íslandi verið tollafgreidd í Japan í lok september. Afgangurinn af kjötinu er annað hvort í tollafgreiðslumeðferð eða í vöruhúsum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×