Golf

Fjöldi íslenskra kylfinga tvöfaldast á tíu árum

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Samkvæmt gögnum Golfsambands Íslands eru 75 prósent af kylfingum á Íslandi karlar. Meirihluti kylfinga er á aldrinum 22-49 ára eða 44 prósent.

18 prósent kylfinga eru 18 ára eða yngri og 38 prósent eru 50 ára og eldri.

Það hefur orðið algjör sprenging í iðkun golfs á Íslandi á síðustu árum og fjöldi iðkenda hefur tvöfaldast á aðeins tíu árum.

16.240 kylfingar eru skráðir í 65 golfklúbba á Íslandi. Fjölgunin milli ára er 700 eða um 5 prósent. Fjölmennasti klúbbur landsins er Golfklúbbur Reykjavíkur með 2.900 félaga. Golfklúbbur Kópavogs og Garðabæjar er næststærstur og skráði inn 300 nýliða á árinu.

Þó svo rúmlega 16.000 kylfingar séu skráðir í klúbba þá er áætlað samkvæmt neyslu- og lífsstílskönnun Capacent að um 40.00 einstaklingar stundi golf þó svo þeir séu ekki í klúbbi.

Golfsambandið ætlar ekki að láta þar við sitja og hyggst enn fjölga kylfingum. Nýlega setti sambandið af stað kynningarátak með yfirskriftinni "Vertu með" en það átak á að kynna golf almennt og fjölga kylfingum meðal barna og ungmenna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×