Viðskipti erlent

Olían hækkar í krafti nýrra hagtalna vestan hafs

Heimsmarkaðsverð á olíu heldur áfram að hækka í dag og er tunnan af Brent olíu á markaðinum í London nú komin í 87,50 dollara. Hefur verðið á henni ekki verið hærra undanfarna 18 mánuði. Það er nýjar hagtölur í Bandaríkjunum sem valda hækkunum á olíunni nú.

Í frétt um málið á Reuters segir að nýjar tölur um framleiðslu og fasteignasölur í Bandaríkjunum hafi aukið mjög vonir manna um að mesti orkunotandi heimsins sé á leið inn í efnahagslega uppsveiflu. Olíuverðið á markaðinum í New York stendur nú í rúmlega 85 dollurum á tunnuna og hefur hækkað um 1,5 dollara frá því á föstudag í síðustu viku.

„Þessa stundina ríkir meiri bjartsýni á markaðinum en fyrr þökk sé öflugum hagtölum í Bandaríkjunum og þeirri staðreynd að Evrópa hefur opnað að nýju lofthelgi sína í kjölfar þess að öskuvandamálið er að leysast," segir Keiichi Sano framkvæmdastjóri rannsókna hjá SCM Securities í Tókýó.

Sano reiknar með að olíuverðið haldist á bilinu 80 til 87 dollarar á tunnuna á næstunni en vandamál Grikklands gætu breytt því mati. „Grikkland veldur fjárfestum miklum áhyggjum," segir Sano. „Fólk hefur áhyggjur af því að ástandið þar muni smita frá sér til Spánar og Portúgal."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×