Handbolti

Júlíus: Er stoltur en svekktur

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Júlíus Jónasson í leiknum í kvöld.
Júlíus Jónasson í leiknum í kvöld. Fréttablaðið/Stefán
Landsliðsþjálfarinn Júlíus Jónasson sagðist vera stoltur og svekktur maður eftir leikinn gegn Frökkum í kvöld. Niðurstaðan var naumt tap en Júlíus segir að liðið sé staðráðið í að komast á EM með sigri á Austurríki á laugardaginn.

"Ég er mjög stoltur og við sáum frábæra frammistöðu hjá þeim, en engu að síður svekktur. Þær voru ótrúlega nálægt þessu og við erum inni í þessu allan tímann," sagði Júlíus.

"Við gáfumst aldrei upp. Með færri mistökum hefði þetta getað gengið og þetta var frábær frammistaða," sagði Júlíus. Hann er sammála því að íslenskur kvennahandbolti sé búinn að taka miklum framförum.

"Við sjáum stelpurnar dags daglega og í öllum leikjum úti og þekkjum þetta vel," sagði Júlíus en margur heldur að liðið sé ekki meðal þeirra bestu. "Það kannski gleymist að við áttum leik við Rúmena heima og úti sem var svona úrslitadæmi, sem var virkilega gott lið."

"Við erum jafnt og þétt að nálgast úrslitakeppnina og við ætlum að klára þetta á laugardaginn. Draumurinn var að klára þetta hér heima í dag en því miður tókst það ekki."

"Við förum til Austurríkis til að vinna. Það er allt undir og ég á von á þeim brjáluðum í þessum leik. Þetta verður skemmtilegur leikur," sagði Júlíus.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×