Viðskipti erlent

Auknar efasemdir um evruna í Danmörku

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Mynd/ AFP.
Mynd/ AFP.
Meirihluti Dana vill gerast aðili að myntbandalagi Evrópu samkvæmt niðurstöðum nýrrar könnunar sem Hagstofa Danmerkur og Danske Bank gerðu í mars. Sagt er frá niðurstöðunum á danska vefnum epn.dk.

Þar kemur fram að þeir eru örlítið fleiri sem svara játandi þegar þeir eru spurðir að því hvort þeir vilji taka upp evru en sá meirihluti hefur minnkað síðan í sambærilegri könnun sem gerð var í fyrra. Hlutföllin breytast hins vegar sé einungis litið til svara þeirra sem eru alveg ákveðnir í afstöðu sinni. Sé það gert er meirihluti svarenda mótfallinn því að taka upp evru. Danske Bank segir þess vegna að ekki sé hægt að draga þá ályktun af könnuninni að það yrði samþykkt að skipta um gjaldmiðil ef gengið yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið í dag.

Könnunin frá því í mars sýnir að 39,4% af aðspurðum myndu örugglega greiða atkvæði með aðild að myntbandalaginu en 41,0% myndu örugglega greiða atkvæði gegn því. Hins vegar eru 12% í vafa en myndu hugsanlega greiða atkvæði með aðild en 6,4% myndu hugsanlega greiða atkvæði gegn því.

Miðað við síðustu könnun, sem gerð var í desember í fyrra, er fjöldi þeirra sem myndu örugglega greiða atkvæði gegn aðild fleiri núna. Danske Bank Bank segir að fjármálavandinn í heiminum hafi vakið upp spurningar um myntbandalagið. Það hafi að sjálfsögðu haft áhrif í Danmörku.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×