Viðskipti erlent

Milljónamæringum í dollurum fjölgar að nýju

Fjöldi þeirra einstaklinga í heiminum sem teljast milljónamæringar í dollurum talið er nú orðinn sá sami og hann var áður en fjármálakreppan skall á árið 2008.

Þetta kemur fram í árlegri skýrslu Merill Lynch og Capgemeni um auð einstaklinga í heiminum. Alls er nú rétt rúmlega 10 milljónir einstaklinga í heiminum sem teljast milljónamæringar í dollurum. Þessum einstaklingum fjölgar í Asíu og á Kyrrhafssvæðinu meðan að þeim hefur fækkað í Evrópu.

Bandaríkin eru áfram sú þjóð sem telur flesta dollaramilljónamæringa en þar eru þeir 2 milljónir og 870 þúsund talsins.

Þau lönd þar sem fjöldi dollaramilljónamæringa vex hvað hraðast eru Kína, Indland og Brasilía. Fjöldi þeirra í Mið- og Suður Ameríku hefur aldrei verið meiri.

Fram kemur í skýrslunni að samanlagður auður þessara milljónamæringa nemur um 39 trilljónum dollara eða hinni stjarnfræðilegu upphæð tæplega 5 milljónir milljarða króna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×