Viðskipti erlent

James Bond líklega að skipta um eiganda

Kvikmyndaverið Lions Gate hefur lagt fram tilboð í MGM en þess hefur lengi verið vænst að þessi tvö stærstu kvikmyndaver í Hollywood myndu sameinast. MGM á nú í miklum fjárhagserfiðleikum og rambar á barmi gjaldþrots.

Sökum fjárhagserfiðleika sinna hefur MGM þurft að fresta tökum á nýrri mynd um James Bond en myndirnar um þennan njósnari í þjónustu Bretadrottningar hafa löngum verið ein helsta gullkú MGM. Fari svo að Lions Gate og MGM sameinist mun James Bond skipta um eiganda.

Lions Gate hefur undanfarið framleitt myndir á borð við The Expendables og Kick-Ass og hefur lengi rennt hýru auga til MGM en það síðarnefnda á höfundarétt á flestum myndum af öllum kvikmyndaverum í Hollywood.

Það hefur flækt málin hingað til að ofurfjárfestirinn Carl Icahn hefur lengi reynt að yfirtaka Lions Gate. Þeim tilraunum hefur stjórn kvikmyndaversins tekist að koma fyrir kattarnef hingað til. Icahn mun hinsvegar vera samþykkur því að Lions Gate og MGM sameinist enda myndi hann þá eiga 21% í hinu sameinaða kvikmyndaveri. Kröfuhafar MGM myndu hinsvegar eignast 55%.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×