Viðskipti erlent

Danir eiga 16.500 milljarða á bankareikningum

Danskur almenningur á nú innistæður upp á 773 milljarða danskra kr. eða rúmlega 16.500 milljarða kr. inni á bankareikningum í bönkum landsins.

Fjallað er um málið á börsen.dk þar sem vitnað er í nýjar tölur frá danska seðlabankanum. Þar segir að þessar innistæður hafi vaxið um 14 milljarða danskra kr. eða um rúmlega 300 milljarða kr. á síðasta ári. Heildarupphæðin samsvarar allri einkaneyslu í Danmörku á einu ári.

Á móti þessu hafa bankaskuldir Dana lækkað um 5 milljarða danskra kr. á síðasta ári. Skuldirnar í heild nema nú 561 milljarði danskra kr. eða um rúmlega 12.000 milljarða kr.

Lone Kjærgaard greinandi hjá Arbejdernes Landsbank segir í samtali við börsen að bólgnir bankareikningar Dana sýni að almenningur þar í landi telji enn að fara beri varlega með peninga sína.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×