Viðskipti erlent

Fjöldi milljarðamæringa fjórfaldast í Noregi

Fjöldi milljarðamæringa, í norskum krónum, hefur fjórfaldast í Noregi frá árinu 1990 og eru þeir nú tæplega 400 talsins. Samhliða þessu hefur tekjubilið milli hinna ofurríku og millistéttarfólks aukist töluvert meira í Noregi en bæði Bandaríkjunum og Bretlandi á sama tímabili.

Þetta kemur fram í skýrslunni Det nye Norge sem unnin var af gáfnaveitunni Manifest Analyse. Fjallað er um skýrsluna á vefsíðunni  e24.no. Þar segir að tekjumunurinn milli hinna ofurríku og millistéttarinnar í Noregi hafi ekki verið meiri síðan árið 1930.

Þá segir að árið 1980 hafi árlegar tekjur hinna ofurríku að jafnaði numið 26 földum meðalárslaunum í Noregi. Á þessari öld hinsvegar nema tekjur hinna ofurríku 178 földum meðallaunum að jafnaði.

Ennfremur segir í skýrslunni að árið 1984 hafi 10% af auðugustu Norðmönnunum ráðið yfir 49% af fjármagnstekjum landsins, þ.e. bankainnistæðum, hluta- og verðbréfum o. sv.fr. Árið 2008 var þetta hlutfall komið yfir 70%.

Samkvæmt gengisskráningunni í morgun kostar norska krónan 20,70 kr. Norskur milljarður er því 20,7 milljarðar kr.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×