Viðskipti erlent

Undirbúningur að sölu Iceland kominn á fullt skrið

Undirbúningur að sölunni á Iceland Food verslunarkeðjunni í Bretlandi er nú kominn á fullt skrið. Talið er að skilanefnd Landsbankans vilji selja keðjuna fyrir árslok.

Fjallað er um málið í blaðinu Telegraph í dag. Þar segir að stjórnendur Iceland, undir forystu forstjórans Malcolm Walker, séu nú að yfirfara bókhaldið yfir rekstruinn til að liðka til fyrir söluferlinu.

Meðal þess sem stjórnendurnir hafa gert er að færa 286 milljónir punda eða um 53 milljarða króna frá hliðarfélagi og inn í móðurfélagið í nokkuð flóknum gerningi ásamt endurskipulagningu á þremur ólíkum eignarhaldsfélögum.

Af þessari upphæð á svo að greiða 100 milljónir punda í arð til eigenda Icesave en skilanefnd Landsbankans heldur á um 66% hlut, skilanefnd Glitnis á 10% og Walker og stjórnendur keðjunnar eiga um 24%.

Þá segir í Telegraph að um 3% eignarhlutur í Iceland hafi nýlega verið afhentur millistjórnendum keðjunnar en þetta var hluti af kaupaukasamningi við þá.

Hvað hugsanlega kaupendur varðar segir í Telegraph að enn sé Malcolm Walker talinn líklegastur en hann bauð milljarð punda í Iceland í fyrra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×