Viðskipti erlent

Evran hefur gefið eftir í vikunni

Evran hefur gefið nokkuð eftir þessa vikuna og er komin á svipaðar slóðir og hún var um miðja síðustu  viku. Nú þegar þetta er ritað (kl. 11:45) stendur evru/dollar krossinn í 1,3830 en í vikubyrjun náði hann sínu hæsta gildi á árinu, eða 1,4039.

Ekki er loku fyrir það skotið að krossinn muni lækka enn frekar, en nú í morgunsárið tilkynnti matsfyrirtækið Moody´s að það hefði lækkað lánshæfiseinkunnir Spánar á langtímaskuldbindingum um eitt þrep, þ.e. úr Aa1 í Aa2.

Ekki er langt um liðið síðan matsfyrirtækið lækkaði síðast lánshæfismat Spánar, en það var í septemberlok sem einkunnir þess voru lækkaðar úr Aaa í Aa1. Horfur um lánshæfismat Spánar eru jafnframt neikvæðar og er því ekki öll nótt úti um að einkunnir þess komi til með að lækka enn frekar næsta kastið.

Endurspeglar það sjónarmið fyrirtækisins um að áætlun spænska ríkisins um að hreinsa til í bankakerfi landsins komi til með að reynast dýrari en Spánverjar reikna með og þar með auka enn á skuldabyrði landsins.

Sem kunnugt er lækkaði matsfyrirtækið lánshæfiseinkunnir Grikklands niður um þrjú þrep í byrjun vikunnar, þ.e. úr Ba1 í B1, og er ljóst að fyrirtækið telur verulega aukna áhættu á greiðslufalli ríkissjóðs þar í landi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×