Viðskipti erlent

Bretar lækka bensínskattinn og breyta fyrirkomulaginu

Bíleigendur í Bretlandi fengu góðar fregnir í gær þegar tilkynnt var um skattalækkun á eldsneyti. Fjármálaráðherrann George Osborne kynnti fjárlög næsta árs í breska þinginu í gær þar sem hann greindi frá þeirri ákvörðun sinni að lækka skattinn sem nemur einu pensi á lítrann eða um 1,8 krónur íslenskar.

Eldsneytisverð hefur rokið upp í hæstu hæðir í Bretlandi eins og hér á landi og tóku bíleigendur fregnunum því fagnandi en breytingin tekur gildi strax í dag. Þá kynnti Osborne nýtt kerfi til þess að reikna út skattinn á eldsneyti sem virkar þannig að skatturinn lækkar þegar heimsmarkaðsverðið hækkar en hækkar síðan aftur þegar verðið lækkar. Þetta er gert til þess að sveiflu í heimsmarkaðsverði komi síður niður á neytendum.

Dísellítrinn í Bretlandi hefur aldrei verið dýrari en nú um stundir og kostar hann um 260 krónur íslenskar. Bensínið er aðeins ódýrara og kostar lítrinn tæpar 250 krónur. Fyrir ári síðan kostaði dísellítrinn um 217 krónur og bensínið um 215 krónur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×