Viðskipti erlent

Roman Abramovich elskar stangarstökk

Milljarðamæringurinn Roman Abramovich er þekktur fyrir áhuga sinn á fótbolta en hann er eigandi enska úrvalsdeildarliðsins Chelsea. Abramovich virðist einnig elska stangarstökk og aðrar frjálsíþróttagreinar.

Í frétt í Politiken segir að Abramovich hafi ákveðið að standa undir kostnaðinum við að endurbæta innanhúsíþróttahöllina í borginni Volgograd og þá einkum svo að stangarstökksstjarnan Jelena Isinbajeva, sem þar er búsett, geti stundað æfingar allan ársins hring.

Þau Jelena, sem er núverandi heimsmetshafi í stangarstökki og Ambramovich eru vel kunn hvort öðru en þau hittust fyrst á síðasta ári þegar Rússar voru að tryggja sér HM í fótbolta árið 2018.

Það fylgir fréttinni að Jelena sé ekki sú eina sem njóta mun góðs af endurbótunum á íþróttahöllinni því bæði langstökkvarinn Tatjana Lebedeva og hástökkvarinn Jelena Slesarenko búa í Volgograd og geta því nýtt sér hina endurbættu aðstöðu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×