Viðskipti erlent

Líkur á að Gordon Brown verði næsti forstjóri AGS

Töluverðar líkur eru taldar á því að Gordon Brown fyrrum forsætisráðherra Breta verði ráðinn sem næsti forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Fjallað er um málið í blaðinu Daily Mail. Þar segir er eftir heimildarmanni að Gordon Brown sé augljós kostur í forstjórastöðuna.

Sem stendur er Gordon Brown staddur í Bandaríkjunum og hann hefur verið duglegur við að veita sjónvarpsviðtöl þar sem efnahagsmál hafa verið í brennidepli. Brown er gestur á ráðstefnu um efnahagsmál í Bretton Woods í New Hampshire en svo vill til að þar var Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn stofnaður á sínum tíma.

Daily Mail segir að ráðningartími Dominque Strauss-Khan núverandi forstjóra AGS renni ekki út fyrr en næsta sumar. Hinsvegar gæti Strauss-Khan hætt fyrr en hann er talinn hafa hug á að bjóða sig fram sem forsetaefni Jafnaðarmanna í Frakklandi.

Þá kemur fram að George Osborne fjármálaráðherra Breta sé ekki hrifinn af því að fá Brown sem forstjóra AGS. Osborne hefur verið óspar á það að kenna Brown um hvernig er komið fyrir bresku efnahagslífi í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×