Viðskipti erlent

Þúsundir milljónamæringa borga ekki skatta

Í nýrri úttekt sem birt hefur verið á vefsíðunni CNN Money kemur fram að 4.000 heimili í Bandaríkjunum sem voru með árstekjur upp á eina milljón dollara eða meira, eða tæplega 114 milljónir kr., borguðu ekki krónu í alríkisskatt í fyrra.

Í úttektinni kemur fram að 18.000 heimili þar sem tekjurnar voru hálf milljón dollara eða meiri borguðu heldur ekki krónu í alríkisskatta í fyrra. Í heildina borguðu 45% af öllum heimilum í Bandaríkjunum ekki alríkisskatta í fyrra en megnið af þeim, eða 66%, voru með árstekjur undir 50.000 dollurum eða 5,7 milljónum kr.

Ástæða þess að hinir efnuðu sleppa við að borga alríkisskatta er hvernig skattaumhverfið er samansett í Bandaríkjunum en það ívilnar hinum efnuðu langt umfram það sem gengur og gerist hjá millitekju- og lágtekjufólki.

Helsta skýringin á því af hverju 4.000 heimili með yfir milljón dollara í árstekjur borga ekki skatta gæti, að sögn CNN Money, legið í því að viðkomandi sé enn með mikið ónotað skattatap vegna fjárfestinga á árinu 2008. Þá geti verið um einyrkja eða sjálfstæða atvinnurekendur að ræða eða að viðkomandi gefi mikið af tekjum sínum til góðgerðastarfa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×