Viðskipti erlent

Miklar álbirgðir í heiminum en markaðurinn þrengist

Í nýlegri greiningu á álmarkaðinum hjá Reuters kemur fram að þótt álbrigðir heimsins hafi aldri verið meiri sé markaðurinn samt að þrengjast, það er framboð heldur ekki í við eftirspurn. Þetta skýrist af m.a. því að lítil áform eru um að opna aftur mörg af þeim álverum sem lokað var í kreppunni.

Eina undantekningin er Alcoa, móðurfélag Fjarðaráls, sem hefur tilkynnt um enduropnun þriggja álvera í Bandaríkjunum. Samkvæmt Reuters er mjög ólíklegt að fleiri fylgi á eftir. Og þótt þessi álver komist í gagnið vantar en tæplega 500.000 tonn upp á að framleiðslan verði jafnmikil og hún var árið 2008. Frá því ári hefur framleiðslan dregist saman um rúmlega 1,2 milljónir tonna. Með áformum Alcoa og einu 50.000 tonna álveri sem enduropna á í Texas munu nást 725.000 tonn til baka af þeim samdrætti.

Á sama tíma upplýsir London Metal Exchange, helsti málmmarkaður heimsins, að birgðir í vöruhúsum hans nemi nú 4,7 milljónum tonn og hafi aldrei verið meiri. Verðið hefur þó haldist hátt. Það stendur í 2.510 dollurum á tonnið miðað við þriggja mánaða framvirka samninga og hefur raunar verið yfir 2.500 dollurum síðan í mars. Það sló upp í tæpa 2.800 dollara í vor en hrapaði síðan í hrávöruniðursveiflunni fyrir skömmu eins og olía og aðrar dollaratengdar hrávörur.

Álframleiðsla í Bandaríkjunum hefur dregist verulega saman á undanförnum árum. Í kringum árið 1990 framleiddi landið 4,65 milljónir tonna eða um fjórðunginn af þáverandi heimsframleiðslu. Á síðasta ári var framleiðslan 1,7 milljónir tonna eða 4% af heimsframleiðslunni sem nam 41 milljón tonna.

Kína er það land sem hefur hvað mesta að segja á álmarkaðinum en þar er ársframleiðslan komin í 24 milljónir tonna. Samkvæmt Reuters ganga áætlanir Kínverja hinsvegar út á að minnka þessa framleiðslu um 4 milljónir tonna fram til ársins 2015. Þetta ætti að auka áhugann á að byggja ný álver annarsstaðar eða enduropna fleiri af þeim sem lokað var.

Orkuverð og mengun eru höfuðstæður fyrir því að álverin sem lokað var í kreppunni eru ekki enduropnuð þrátt fyrir hátt álverð. Orkan er um þriðjungur af framleiðslukostnaðinum. Því er Ísland nefnt sem álitlegur kostur í greiningu Reuters um hvar hagkvæmast er að stunda álframleiðslu í heiminum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×