Handbolti

Ágúst Jóhannsson: Gefur mikið sjálfstraust

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Ágúst skipar sínu liði fyrir.
Ágúst skipar sínu liði fyrir.
Ágúst Jóhannsson var eðlilega svekktur að loknu eins marks ósigrinum gegn Svíþjóð í kvöld, „Ég er hrikalega svekktur, mér fannst við spila frábærlega, sérstaklega varnarlega stærsta hluta leiksins. Það er svekkjandi að ná ekki að leggja silfurlið Svía að velli,“sagði Ágúst.

„Við vorum aðeins sofandi til að byrja með og taktlausar. Við fórum yfir einfalda þætti í leikhléinu og stelpurnar komu sér hægt og rólega inn í leikinn. Það var alveg viðbúið því við áttum við bestu vörn í heimi, ásamt norsku vörninni, þannig að það er ekki auðvelt að komast í gegn en við fengum þægilegri sóknir og komumst í betri færi er leið á. Það tók tíma að komast inn í leikinn en við komumst í gang.“

Íslensku markverðirnir vörðu aðeins tvö skot í fyrri hálfleik en Guðrún Ósk Maríasdóttir varði ágætlega í seinni hálfleik. Það að vera aðeins einu marki undir með tvö varin skot í hálfleik var magnað afrek og sagði mikið um gæði íslensku varnarinnar. „Markvarslan var alls ekki nógu góð en hún var frábær í síðasta leik, það er bara eins og það er. Markvarslan kom í seinni og við vorum grátlega nálægt því að vinna þetta lið og við skulum átta okkur á því að þetta er ekkert smá lið þannig að ég er mjög stoltur af stelpunum. Þær spiluðu frábærlega og voru til fyrirmyndar.“

Þessi úrslit gefa liðinu mikið sjálfstraust fyrir átökin gegn Úkraínu sem framundan eru en sigri liðið það umspil vinnur það sér sæti á HM í Brasilíu. „Þetta er búið að vera vonum framar og gefur aukið sjálfstraust en við þurfum á öllu okkar að halda á móti Úkraínu og megum ekkert slaka á og þurfum að halda 100% fókus. Það er klárt mál að við þurfum fleira fólk á pallana. Við erum að spila á erfiðum útivelli í Úkraínu og þurfum að búa til gryfju hér í heimaleiknum,“ sagði Ágúst að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×