Viðskipti erlent

Wal-Mart blandar sér í slaginn um Iceland

Breska stórmarkaðakeðjan Asda, sem er í eigu Wal-Mart stærstu verslunarkeðju heimsins, ætlar sér að leggja fram tilboð í Iceland Foods.

Þetta kemur fram á Bloomberg fréttaveitunni sem aftur vitnar í frétt um málið í breska blaðinu Sunday Times. Fram kemur í fréttinni að Sunday Times nafngreinir ekki heimildir sína fyrir fréttinni.

Eins og áður hefur komið fram í fréttum hefur stórmarkaðakeðjan William Morrison lýst yfir áhuga sínum á því að kaupa Iceland. Malcolm Walker forstjóri Iceland þykir einnig líklegur kaupandi en Walker hefur rétt til þess að ganga inn í hvaða tilboð sem berst í Iceland og jafna það.

Samkvæmt frétt Sunday Times liggur verðmatið á Iceland á bilinu 1,2 til 1,6 milljarða punda. Þetta er nokkuð lægri upphæð en áður hefur komið fram sem er allt að 2 milljarðar punda eða allt að 370 milljarðar kr.

Skilanefnd Landsbankans á rúmlega 66% hlut í Iceland og skilanefnd Glitnis heldur á 10% hlut. Tæplega 24% eru í eigu Malcolm Walkers og annarra stjórnenda keðjunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×