Viðskipti erlent

Segir Microsoft vera að kaupa Nokia

Sérfræðingur í málefnum tæknifyrirtækja heldur því fram að Microsoft sé að kaupa farsímaframleiðslu Nokia fyrir tæplega 2.200 milljarða kr. Þetta kemur fram á vefsíðunni bgr.com en flestir fjölmiðlar Danmerkur birta fréttir um þetta í dag.

Sé sem hér um ræðir heitir Eldar Murtazin og hann hefur áður verið fyrstur með fréttir af Nokia. Hann var meðal þeirra fyrstu sem sögðu frá því þegar Microsoft og Nokia sömdu um að nota hugbúnað frá Microsoft í snjallsíma Nokia.

Murtazin hélt því fram fyrir nokkru síðan að Microsoft og Nokia myndu hefja lokaðar viðræður um kaupin og að þeim yrði lokið fyrir áramót.

Ýmislegt bendir til að Murtazin hafi rétt fyrir sér, að því er segir í umfjöllun Jyllands Posten um málið. Stephen Elop forstjóri Nokia er fyrrum stjórnandi hjá Microsoft og fyrirtækin vinna þegar saman að smíði nýs snjallsíma sem væntanlega kemur á markað fyrir áramót.

Elop vísar þessari frétt alfarið á bug og segir ekkert hæft í því sem Murtazin segir. Talsmaður Nokia hefur einnig látið hafa það eftir sér að orðrómurinn frá Murtazin verði ónákvæmari með hverri mínútu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×