Golf

Rory McIlroy verður með Els og Fowler í ráshóp fyrstu tvo keppnisdagana

Rory McIlroy sigraði með yfirburðum á opna bandaríska meistaramótinu.
Rory McIlroy sigraði með yfirburðum á opna bandaríska meistaramótinu. AFP
Opna breska meistaramótið í golfi hefst á fimmtudaginn á Royal St. George‘s vellinum og er þetta í 140. sinn sem mótið fer fram. Louis Oosthuizen frá Suður-Afríku hefur titil að verja en hann sigraði með nokkrum yfirburðum í fyrra á St. Andrews. Að venju verða margir spennandi ráshópar fyrstu tvo keppnisdagana og Norður-Írinn Rory McIlroy vekur mesta athygli allra keppenda.

Rory McIlroy verður í ráshóp með hinum þaulreynda Suður-Afríkumanni Ernie Els fyrstu tvo keppnisdagana og bandaríska ungstirnið Ricky Fowler verður með þeim í ráshóp. Þeir fara af stað kl. 8.09 að íslenskum  tíma á fimmtudagsmorgun.

Efsti maður heimslistans, Luke Donald frá Englandi, er í næsta ráshóp þar á eftir kl. 9.20 en Japaninn Ryo Ishikawa og Spánverjinn Sergio Garcia verða með Donald fyrstu tvo keppnisdagana.

Eftir hádegi á fimmtudag hefur Lee Westwood frá Englandi leik kl. 13.10 að íslenskum tíma en með honum verða þeir Steve Stricker frá Bandaríkjunum og Charl Schwartzel frá Suður-Afríku sem sigraði á Mastersmótinu í vor.

Oosthuizen hefur titilvörnina kl. 13.21 að íslenskum tíma og er hann með Martin Kaymer frá Þýskalandi og Bandaríkjamanninum Phil Mickelson í ráshóp fyrstu tvo keppnisdagana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×