Handbolti

Árskortin á leiki AG Kaupmannahöfn í vetur eru uppseld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnór Atlason og Snorri SteinnGuðjónsson urðu meistarar með AG á síðasta tímabili.
Arnór Atlason og Snorri SteinnGuðjónsson urðu meistarar með AG á síðasta tímabili. Mynd/Heimasíða AG
Það er mikill áhugi fyrir komandi tímabili hjá dönsku handboltameisturunum í AG Kaupmannahöfn og það sést vel á því hversu vel gekk að selja árskort á leiki liðsins.

Íslensku landsliðsmennirnir Ólafur Stefánsson og Guðjón Valur Sigurðsson hafa nú bæst í hóp þeirra Arnórs Atlasonar og Snorra Steins Guðjónssonar og framundan er þátttaka liðsins í Meistaradeildinni í fyrsta sinn í sögu félagsins.

Forráðamenn AGK ákváðu að selja ekki meira en 2600 árskort og nú eru þau uppseld. Miðar á einstaka leiki haustsins eru komnir í sölu á netinu og í september fara menn að selja miða á heimaleiki í Meistaradeildinni.

Bröndby höllin var tekin í gegn í sumar og þar eru meðal annars komnir upp nýir og stórir sjónvarpsskjáir til þess að auka skemmtanagildi fólks á leikjunum.

Forráðamenn AGK hafa sett það markmið að það verði uppselt á alla heimaleiki liðsins á tímabilinu. Fyrsti leikur tímabilsins fer fram 23. ágúst þegar liðið mætir Århus Håndbold í Meistarakeppninni.



 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×