Handbolti

Norðmenn vilja semja við Þóri fram yfir ÓL 2016

Þórir Hergeirsson ásamt Marit Breivik fyrrum aðalþjálfara norska kvennalandsliðsins í handbolta.
Þórir Hergeirsson ásamt Marit Breivik fyrrum aðalþjálfara norska kvennalandsliðsins í handbolta. AFP
Karl-Arne Johannessen forseti norska handknattleikssambandsins segir í viðtali við dagblaðið Verdens Gang að Þórir Hergeirsson verði endurráðinn sem þjálfari norska kvennalandsliðsins.  Ef marka má orð forsetans þá verður Selfyssingurinn með norska liðið á Ólympíuleikunum í Brasilíu árið 2016.

Þórir hefur enn ekki fengið formlegt tilboð um að halda áfram þjálfun liðsins en Johannessen telur engar líkur á því að Þórir verði ekki áfram með liðið. „Hann verður áfram, hvort sem hann vill það eða ekki. Hann getur farið að bóka flugmiðann til Brasilíu árið 2016. Ég er mjög ánægður með störf Þóris, hvernig hann hugsar og hvernig hann kemur fram fyrir hönd liðsins,“ segir Johannessen og bætir því við að allir stjórnarmenn sambandsins séu sammála um að Þórir og aðstoðarþjálfari liðsins Mia Høgdahl eigi að halda áfram með liðið.

Þórir tók við norska kvennalandsliðinu árið 2009 en hann hafði verið aðstoðarþjálfari Marit Breivik í mörg ár þar á undan. Núgildandi samningur hans rennur út eftir Ólympíuleikana í London á næsta ári.

„Ég vil helst ganga frá þessum málum í haust. Það er mikilvægt að geta skipulagt hlutina langt fram í tímann með fjölskyldunni,“ segir Þórir í viðtali við VG.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×