Viðskipti erlent

Miklar hreinsanir á næstunni meðal Nokia stjóra

Nokkrir háttsettir stjórnendur finnska farsímarisans Nokia verða látnir taka pokann sinn á næstunni. Hinn nýi forstjóri Nokia, Stephen Elop, ætlar sér að hreinsa rækilega til í stjórnunarteymi fyrirtækisins. Þetta hefur The Wall Street Journal eftir ónafngreindum heimildum.

Í blaðinu kemur fram að hreinsanir Elop muni ekki einungis ná til 10 æðstu stjórnenda Nokia heldur verði margir millistjórnendur látnir fjúka í leiðinni.

Stephen Elop var keyptur frá Microsoft á síðasta ári en honum er ætlað það hlutverk að hefja Nokia aftur til vegs og virðingar á farsímamarkaðinum. Nokia hefur tapað markaðshlutdeild til snjallsíma sem keyra á Android og iPhone stýrikerfum.

Búist er við að Elop tilkynni breytingar á yfirstjórn Nokia á fundi með greinendum á föstudaginn kemur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×