Viðskipti erlent

Umfangsmikið skattafúsk í kvótasölu í Noregi

Skattyfirvöld í Noregi segja að við eftirlit með sjávarútvegsfyrirtækjum landsins í fyrra hafi skatturinn uppgvötvað tekjur upp á 1,2 milljarða norskra kr. eða 24 milljarða kr. sem ekki voru taldar fram. Megnið af þessum tekjum, eða 800 milljónir norskra kr., voru vegna viðskipta með veiðiheimildir.

Þá fann skatturinn einnig eignir hjá sjávarútvegsfyrirtækjum upp á 1,8 milljarða norskra kr., eða um 36 milljarða kr., sem ekki höfðu verið gefnar upp til skatts. Alls fór skatturinn í 600 eftirlitsferðir í norsk sjávarútvegsfyrirtæki í fyrra og var það fjórða árið í röð sem slíkt er gert.

Í frétt um málið í Dagens Næringsliv segir að það sem mest kom á óvart í eftirliti skattsins í fyrra var ekki að svartir peningar séu algengir hjá sjávarútvegsfyrirtækjum heldur að hægt er að tengja sum málin við skipulagða glæpastarfsemi.

Sölvi Åmo Albrigtsen hjá Skatt Nord segir í samtali við Dagens Næringsliv að skatturinn sjái vísbendingar um að eigendur/stjórnendur sjávarútvegsfyrirtækja leiti til aðila utan Noregs til að skýla hagnaði og eignum og einnig til að stunda peningaþvætti. Sölvi telur þar að auki að fé frá rekstri sjávarútvegsfyrirtækjanna sé falið í skattaparadísum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×