Golf

Jhonattan Vegas stefnir á að bæta met í eigu Tiger Woods

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar
Jhonattan Vegas er ekki þekktasti kylfingur heims en hann hefur vakið gríðarlega athygli á fyrstu mótunum á PGA mótaröðinni í Bandaríkjunum.
Jhonattan Vegas er ekki þekktasti kylfingur heims en hann hefur vakið gríðarlega athygli á fyrstu mótunum á PGA mótaröðinni í Bandaríkjunum. AP

Jhonattan Vegas er ekki þekktasti kylfingur heims en hann hefur vakið gríðarlega athygli á fyrstu mótunum á PGA mótaröðinni í Bandaríkjunum. Vegas, sem er frá Venesúela, er á góðri leið með að slá met sem er í eigu Tiger Woods. Vegas er á góðri leið með að vinna sér inn 2 milljónir dala í verðlaunafé á PGA mótaröðinni með meiri hraða en Woods gerði á sínum tíma.

Vegas sem er 26 ára gamall sigraði á Bob Hope meistaramótinu sem var aðeins hans fimmta PGA mót á ferlinum og kom sigur hans verulega á óvart. Hann var á meðal efstu manna á Farmers meistaramótinu sem lauk á sunnudag og þar endaði Vegas í þriðja sæti. Þar náði hann betri árangri en Woods sem endaði í 44. sæti og Phil Mickelson varð annar og Bubba Watson sigraði.

Á þessu tímabili hefur Vegas unnið sér inn tæplega 1,3 milljón dala á fimm mótum eða um 150 milljónir kr. Til samanburðar rauf Woods 2 milljóna dala múrinn eftir 16 mót þegar hann var nýliði á mótaröðinni.

Vegas tryggði sér keppnisrétt á PGA mótaröðinni með því að enda í fimmta sæti á peningalista Nationwide mótaraðarinnar sem er sú næst sterkasta í Bandaríkjunum. Á síðustu tveimur vikum hefur Vegas farið úr 118. sætinu á heimslistanum upp í það 69. Hann er eini kylfingurinn frá Venesúela sem hefur náð keppnisrétti á PGA mótaröðinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×