Viðskipti erlent

Vilja auka traust á aðgerðum

Fundað Evangelos Venizelos, fjármálaráðherra Grikklands (til vinstri), heilsar Mario Monti, forsætis- og fjármálaráðherra Ítalíu, á fundi fjármálaráðherranna í gær.Fréttablaðið/AP
Fundað Evangelos Venizelos, fjármálaráðherra Grikklands (til vinstri), heilsar Mario Monti, forsætis- og fjármálaráðherra Ítalíu, á fundi fjármálaráðherranna í gær.Fréttablaðið/AP
Fjármálaráðherrar Evruríkjanna sautján reyndu í gær að auka traust fjárfesta á því að aðgerðir ríkjanna til að bjarga Grikklandi frá þjóðargjaldþroti séu nægilega vel fjármagnaðar á fundi í Brussel.

Ráðherrarnir samþykktu næsta hluta björgunaraðgerðapakkans sem, auk lána frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, hefur haldið Grikklandi á floti frá því í maí í fyrra. Samþykkt var að lána Grikklandi átta milljarða evra, sem jafngildir um 1.300 milljörðum íslenskra króna. Án lánsins hefði gríska ríkið komist í greiðsluþrot fyrir áramót. Ráðherrarnir ræddu einnig hugmyndir um að ríkin gefi upp hluta af fullveldi sínu í peningamálum til Evrópska seðlabankans. Það er talið ein af þeim leiðum sem hægt er að fara til að koma evrusvæðinu fyrir horn í efnahagskreppunni.

Ljóst þykir að björgunaraðgerðir líkar þeim sem nú halda Grikklandi á floti eru ekki mögulegar fyrir Ítalíu, landið er of stórt til að því verði bjargað komist það í þrot. Það gæti haft alvarlegar afleiðingar fyrir þær 322 milljónir manna sem nota evruna. - bj






Fleiri fréttir

Sjá meira


×