Handbolti

Formaður Vals óttast tengsl Framara í HSÍ

Hans Steinar Bjarnason skrifar
Formaður handknattleiksdeildar Vals furðar sig á að Fram hafi kært úrslitin í leik liðanna í undanúrslitum bikarkeppninnar og óttast tengsl Framara inn í handknattleikssamband Íslands.

Eins og kunnugt er unnu Valsmenn sigur í framlengdum undanúrslitaleik gegn Fram í Eimskipsbikar karla á sunnudaginn.

Framarar hafa nú kært úrslit leiksins á þeim forsendum að einn leikmaður Vals, Markús Máni Michaelsson, hafi tekið þátt í leiknum án þess að vera með gildan leikmannasamning hjá Val.

Markús er félagsmaður í Val en hafði lagt skóna á hilluna. Gerður var við hann svkallaður B-leikmannasamningur á síðustu stundu og tilkynning um það send á rafrænu formi til HSÍ á sunnudaginn, klukkutíma fyrir leik.

Sveinn Stefánsson formaður handknattleiksdeildar Vals furðar sig á þessari kæru Framara og segir Valsmenn ekki hafa gert neitt rangt.

„Samningurinn barst HSÍ í tæka tíð og um það er ekki deilt," sagði Sveinn. „Málið snýst um að þegar stjórnarmaður Fram mætir niður í HSÍ liggur vefþjónninn niðri. Þeir gátu því ekki fengið staðfest klukkan níu á mánudagsmorgun að faxið hafði borist."

„Að hluta til er kæra Fram er byggð á misskilningi - hvort sem það er viljandi eða óviljandi. En ég óttast pínulítið máttleysi HSÍ í þessu máli. Auðvitað getur það leitt til þess að leiknum verði frestað. Þeir geta ekki stoppað svona mál þegar í ljós er komið að það er ekkert mál á borðinu."

„Ég óttast auðvitað líka mikið tengsl Fram inn í HSÍ. Starfsmenn HSÍ eru búnir að staðfesta við okkur og við Fram að samningurinn hafi borist í tæka tíð. Hvað er þá málið?" Þetta segir formaður handknattleiksdeildar Vals sem vísaði þarna til manna sem eiga sæti í stjórn HSÍ og starfsmanna sambandsins.

Reynir Stefánsson varaformaður handknattleiksdeildar Fram sagði í samtali við íþróttadeild í morgun að félagið vilji láta reyna á reglugerð um leikmannasamninga. Hann segir ákvörðun verða tekna á stjórnarfundi nú í hádeginu um hvort kærunni verði haldið til streitu.

Úrslitaleikurinn á að fara fram laugardaginn 26. febrúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×