Handbolti

Aðeins eitt íslenskt mark í sigri AG

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Heimasíða AG
Arnór Atlason var eini Íslendingurinn sem komst á blað í öruggum sigri AG Kaupmannahafnar á Skive, 28-17, í dönsku úrvalsdeildinni í kvöld.

Arnór skoraði eitt mark í leiknum en þeir Guðjón Valur Sigurðsson, Ólafur Stefánsson og Snorri Steinn Guðjónsson eru einnig á mála hjá liðinu.

AG byrjaði gríðarlega vel í leiknum og komst í 8-2 forystu. Skive náði þó að minnka muninn í fjögur mörk áður en fyrri hálfleik lauk, 12-8.

Skive náði þó aldrei að ógna forystu meistaranna að verulegu leyti í seinni hálfleik og sigu þeir síðarnefndu aftur hægt og rólega fram úr. Nicklas Ekberg var markahæsti leikmaður AG í kvöld með átta mörk.

Bjerringbro/Silkeborg tapaði svo nokkuð óvænt fyrir Viborg á heimavelli, 29-27, en Guðmundur Árni Ólafsson skoraði tvö mörk fyrir fyrrnefnda liðið.

AG er á toppi deildarinnar með 37 stig, níu stigum meira en Bjerringbro/Silkeborg sem er í öðru sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×