Viðskipti erlent

Notendafjöldi Facebook kominn yfir 900 milljónir

Magnús Halldórsson skrifar
Mark Zuckerberg, forstjóri og aðaleigandi Facebook.
Mark Zuckerberg, forstjóri og aðaleigandi Facebook.
Notendafjöldi Facebook er nú kominn yfir 900 milljónir manna á heimsvísu, samkvæmt tölum sem birtar voru um notkun og rekstur Facebook í morgun.

Fjöldi notenda hefur á einu ári aukist um 220 milljónir manna, úr 680 í 901 milljón. Þá hefur daglegum notendum Facebook fjölgað úr 372 milljónum í fyrra í 526 milljónir á þessu ári.

Á fyrsta ársfjórðungi þessa árs námu tekjur Facebook ríflega einum milljarði dollara, eða sem nemur tæplega 128 milljörðum króna. Á sama tímabili námu tekjurnar 731 milljón dollara, eða sem nemur 93 milljörðum króna.

Þá var uppgefið í dag hvernig Facebook greiðir fyrir myndasamfélagsmiðilinn Instagram, en Facebook greiðir 300 milljónir dollara með reiðufé og restina með hlutafé í Facebook, samtals 23 milljónir hluta, sem eru virði um 700 milljóna dollara.

Mánaðarlegum notendum Facebook í snjallsímum hefur fjölgað hratt, en þeir eru nú 488 milljónir.

Á hverjum degi eru „like" á vefnum sem nemur 3,2 milljörðum, yfir 300 milljónum mynda er hlaðið á Facebook veggi á hverjum degi og 125 milljónir vinasambanda verða til á hverjum degi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×