Viðskipti erlent

Alisher Usmanov orðinn auðugasti maður Rússlands

Úsbekinn Alisher Usmanov er orðinn auðugasti maður Rússlands. Auður hans er metinn á 19 milljarða dollara eða um 2.400 milljarða króna og jókst um 1,6 milljarða dollara í fyrra að því er segir í frétt um málið á Bloomberg fréttaveitunni.

Usmanov kemur við sögu í rannsóknarskýrslu Alþingis, en gögn eru til um fyrirhugaðar lánveitingar upp á 280 milljarða króna sem hann gat fengið hjá Kaupþingi haustið 2008 rétt fyrir hrun bankans. Engar skýringar hafa fengist á þessum fyrirhuguðu lánveitingum.

Á Vesturlöndum er Usmamov einkum þekktur sem eigandi enska úrvalsdeildarliðsins Arsenal. Í Rússlandi stjórnar hann einu af stærstu málmvinnslufyrirtækjum landsins.

Þegar Usmanov komst í fréttirnar hérlendis síðast í vetur sagði Guðmundur Ólafsson hagfræðingur og sérfræðingur um rússnesk málefni m.a. að Usmanov hafi ekki verið annað en handrukkari fyrir olíurisann Gazprom hér á árum áður.

Í umfjöllun Wikipedia um Usmanov kemur fram að hann sat um sex ára skeið á níunda áratug síðustu aldar í fangelsi í Úsbekistan eftir að hafa verið dæmdur fyrir mútur og fjárkúgun. Dómur hans hljóðaði upp á átta ára harða refsivist í þrælkunarbúðum. Hann afplánaði sex ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×