Viðskipti erlent

Auðugur Dani er annar stærsti landeigandi á Bretlandseyjum

Danskur auðmaður er orðinn næststærsti jarðeigandinn á Bretlandseyjum. Hann á orðið meiri jarðir þar en Karl Bretaprins.

Um er að ræða Anders Holch Povlsen einn eiganda og forstjóra Bestseller tískuhússins í Danmörku. Hann hefur keypt lönd og bújarðir í Skotlandi í miklum mæli á síðustu árum. Þessar jarðir og lönd eru samtals yfir 500 ferkílómetrar að stærð.

Í umfjöllun um málið í blaðinu Daily Express segir að Povlsen eigi orðið meira af jörðum á Bretlandseyjum en bæði Karl Bretaprins og hertoginn af Westminster. Þessar jarðir Povlsen eru einkum í Sutherland í Skotlandi. Það fylgir söginni að Povlsen hyggst kaupa um 200 ferkílómetra í viðbót af jörðum og landi á þessum slóðum.

Hann segir að ástæðan fyrir þessum jarðarkaupum sínum sé m.a. að Skotland sé eitt af fáum svæðum utan hins ótrygga evru-svæðis í Evrópu sem hægt er að fjárfesta í.

Povlsen býr í Danmörku með eiginkonu sinni og þremur dætrum. Fjölskylda hans er með þeim efnaðri í landinu en hjá Bestseller vinna nú um 12.000 manns.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×