Handbolti

Alfreð: Andersson á leið til AG í sumar

Stefán Hirst Friðriksson skrifar
Kim Andersson átti stóran þátt í þrennu Kiel á tímabilinu
Kim Andersson átti stóran þátt í þrennu Kiel á tímabilinu
Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel í Þýskalandi, gaf nú um helgina til kynna að sænska stórskyttan Kim Andersson, væri á leið til AG Kaupmannahafnar í lok tímabils.

Alfreð lýsti Andersson sem bestu hægri skyttu heims í dag og sagði að missirinn á honum væri gríðarlegur.

„Hann er besti leikmaðurinn í sinni stöðu í heiminum í dag. Hann er nánast fullkomin skytta ásamt því að vera frábær einstaklingur. Missirinn af honum er gríðarlegur en það eru fjölskylduástæður sem liggja hér að baki og skiljum við það," sagði Alfreð.

„AG verða virkilega sterkir á næsta tímabili. Þeir verða með tvo af bestu leikmönnum heims í Kim Andersson og Mikkel Hansen. Ef þeim tekst svo að fá Ólaf Stefánsson til þess að spila eitt tímabil í viðbót fyrir liðið verða þeir illviðráðanlegir á öllum vígstöðum," sagði Alfreð að lokum.

Félagsskipti Andersson til AG Kaupmannahafnar verða tilkynnt á fimmtudaginn næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×