Handbolti

Hedin þjálfar áfram norska landsliðið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Vilhelm
Robert Hedin mun áfram þjálfa norska handboltalandsliðið en hann hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við norska handknattleikssambandið.

Þetta kemur fram í norskum fjölmiðlum í dag en Norðmenn eiga erfiðan leik gegn Ungverjalandi fyrir höndum um helgina í undankeppni HM 2013.

Ungverjar unnu fyrri leikinn á heimavelli, 27-21, og því ljóst að það verður erfitt verkefni fyrir Hedin og félaga að tryggja sig inn á HM sem fer fram á Spáni í janúar næstkomandi.

„Markmiðið er að komast inn á Ólympíuleikana 2016. Það verður ekki létt en við ætlum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að komast þangað," sagði Hedin við norska fjölmiðla.

Hedin hefur þjálfað norska liðið með misjöfnum árangri síðan 2008. Hann bindur þrátt fyrir allt vonir við að komast inn á HM. „Það er enn mögulegt. Við höfum verið óheppnir með meiðsli auk þess sem að liðið er að ganga í gegnum kynslóðaskipti," sagði hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×