Handbolti

Pekarskyte íslenskur ríkisborgari

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Pekarskyte í leik með Haukum árið 2008.
Pekarskyte í leik með Haukum árið 2008. Mynd/Anton
Handboltakonan Ramune Pekarskyte fær senn íslenskt ríkisfang þar sem hún var ein þeirra 36 sem allsherjar- og menntamálanefnd lagði til að fengi íslenskan ríkisborgararétt.

Pekarskyte lék með Haukum hér á landi í átta ár áður en hún hélt til Noregs fyrir tveimur árum þar sem hún hefur leikið undir stjórn Ágústs Jóhannssonar hjá Levanger. Ágúst hætti reyndar hjá liðinu undir lok síðustu leiktíðar.

Samkvæmt reglum Alþjóðahandknattleikssambandsins, IFH, má leikmaður ekki spila með landsliði í þrjú ár áður en hann spilar með öðru landsliðið en Pekarskyte, sem er frá Litháen, hefur ekki spilað landsleik í tæp þrjú ár.

Gústaf Adolf Björnsson, aðstoðarlandsliðsþjálfari, staðfestir í samtali við Morgunblaðið í dag að Pekarskyte verði því gjaldgeng með íslenska landsliðinu í október. Ef Ísland fengi þátttökurétt á EM í desember mætti Pekarskyte því spila með Íslandi þá.

Pekarskyte er á 32. aldursári og hefur þótt standa sig vel í Noregi, þar sem hún hefur vakið athygli bestu félagsliða landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×