Handbolti

Didier Dinart spilar með Róberti og Ásgeiri Erni í París

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Didier Dinart.
Didier Dinart. Mynd/DIENER
Íslensku landsliðsmennirnir Ásgeir Örn Hallgrímsson og Róbert Gunnarsson verða liðsfélagar franska varnartröllsins Didier Dinart á næstu leiktíð. Didier Dinart hefur gert eins árs samning við franska félagið Paris Saint-Germain Handball sem safnar nú liði fyrir átök vetrarins.

Didier Dinart er leikjahæsti landsliðsmaður Frakka frá upphafi og hefur verið lengi talinn vera besti varnarmaður í heimi. Hann hefur spilað með spænska liðinu BM Ciudad Real undanfarin níu ár en gerir nú eins árs samning við Paris Saint-Germain.

Didier Dinart er einn sigursælasti leikmaður allra tíma en með Frökkum hefur hann orðið þrisvar sinnum Heimsmeistari, tvisvar sinnum Evrópumeistari og einu sinni Ólympíumeistari. Þá er Dinart búinn að vinna Meistaradeildina þrisvar sinnum á ferlinum og hefur alls orðið ellefu sinnum meistari í Frakkland eða á Spáni.

Frakkarnir hafa einnig samið við króatísku skyttuna Marko Kopljar sem er orðinn 26 ára gamall en hefur spilað í heimalandinu allan sinn feril. Kopljar varð króatískur meistari í áttunda sinn með Croatia Osiguranje Zagreb í vetur.

Ásgeir Örn kemur til liðsins frá Hannover-Burgdorf en Róbert hefur spilað með Rhein-Neckar Löwen síðustu ár. Serbinn Mladen Bojinovic, Spánverjinn Antonio Garcia Robledo og franski hornamaðurinn Samuel Honrubia hafa einnig samið við liðið sem ætlar sér stóra hluti næsta vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×