Viðskipti erlent

Amazon þróar snjallsíma

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Jeff Bezos, stjórnarformaður og stofnandi Amazon.
Jeff Bezos, stjórnarformaður og stofnandi Amazon. mynd/AFP
Talið er að vefverslunarrisinn Amazon sé nú að þróa sinn eigin snjallsíma. Fyrirtækið, sem lengst af seldi rafbækur, og það með góðum árangri, hefur á síðustu árum aukið umsvif sín verulega á raftækjamarkaðinum með vörum eins og Kindle lesbrettinu og Kindle Fire spjaldtölvunni.

Þrálátur orðrómur hefur verið á kreiki síðustu mánuði um innreið Amazon á snjallsímamarkaðinn. Nú þykir ljóst að þróun snjallsímans sé á lokastigi og að Amazon hafi sótt um fjölda einkaleyfa vegna tækisins. Þá hefur fyrirtækið samið við tævanska raftækjaframleiðandann Foxconn um að sjá um framleiðslu snjallsímans.

Líklegt þykir að síminn verði knúinn af Android stýrikerfinu en Kindle Fire spjaldtölvan notast við sama hugbúnað.

Apple og Samsung hafa lengi vel drottnað yfir hinum ört vaxandi snjallsímamarkaði en fyrirtækin seldu tæplega 400 milljón snjallsíma á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Ljóst er að Amazon vill tryggja sér hlutdeild á þessum markaði.

Amazon er þó að mörgu leyti frábrugðið samkeppnisaðilum sínum. Öfugt á við Apple, Samsung og THC þá getur Amazon selt vörur sínar með tapi því tilgangur Kindle Fire og hins væntanlega snjallsíma er að færa notendur nær vefverslun fyrirtækisins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×