Handbolti

Kim Andersson: Dómararnir gerðu okkur erfitt fyrir

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Andersson, númer fimm, fylgist með Aroni Pálmarssyni skora eitt níu marka sinna í leiknum.
Andersson, númer fimm, fylgist með Aroni Pálmarssyni skora eitt níu marka sinna í leiknum. Mynd/Valli
Svíar voru allt annað en sáttir með dómgæsluna í 33-32 tapinu gegn Íslendingum í B-riðli handknattleikskeppni Ólympíuleikanna í London í kvöld.

Í stöðunni 32-31 og mínúta til leiksloka brunuðu Svíar í hraðaupphlaup. Alexander Petersson fiskaði hins vegar ruðning á Dalibor Doder við lítinn fögnuð Svíanna.

Íslendingar fóru í kjölfarið í sókn. Svíar opnuðu leið fyrir Ásgeir Örn Hallgrímson sem fór þó ekki inn. Ótrúlegt nokk dæmdu dómararnir ekki leiktöf á Ísland en nokkrum sekúndum síðar fór Ásgeir Örn inn úr sama færi og tryggði Íslandi sigur.

„Dómararnir gerðu okkur erfitt fyrir og við fengum að kenna á skrýtnum ákvörðunum. Þannig varð þetta brött brekka að klífa," sagði Kim Andersson stórskytta Svía í leikslok.

„Það er erfitt að berjast þegar dómararnir flauta á brot sem var ekki einu sinni dæmt á í yngri flokkum. En það þýðir lítið að væla yfir dómurunum," sagði Andersson.

Sænsku leikmennirnir voru í þrígang reknir af velli með tveggja mínútna brottvísun en íslensku strákarnir átta sinnum. Í eitt skiptið var þó algjörlega við íslensku leikmennina að sakast þar sem þeir gerðu mistök í skiptingu sinni og voru einum of margir inni á vellinum.

Svíar mæta Argentínu á laugardag og Andersson er klár í slaginn fyrir þann leik.

„Þeir eru alls ekki lélegt lið. En með sigri tryggjum við okkur sæti í átta liða úrslitum bikarsins," sagði Andersson svekktur í leikslok.

Staffan Olson, annar af þjálfurum Svía, hrósaði sínum mönnum fyrir að hafa saxað á forskot Íslands í síðari hálfleiknum.

„Við sýndum baráttuanda með því að koma okkur aftur inn í leikinn," sagði Olsson sem var þó ósáttur við fjölda tæknimistaka sinna manna.

„Íslendingarnir refsa fyrir slík mistök og eru ótrúlega góðir í því. Við megum ekki gera okkur seka um þess lags mistök," sagði Olsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×