Handbolti

Franska lögreglan handtók Karabatic og félaga

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Karabatic er hér leiddur út í lögreglubíl eftir leikinn í dag.
Karabatic er hér leiddur út í lögreglubíl eftir leikinn í dag. Nordic Photos / AFP
Samkvæmt frönskum fjölmiðlum voru tólf manns handteknir í dag í tengslum við veðmálasvindl í franska handboltanum.

Nikola Karabatic, leikmaður Montpellier, er einn þeirra en hann var handtekinn ásamt fleirum eftir leik liðsins gegn Paris Saint-Germain í dag. Aðrir sem voru handteknir eru Luka Karabatic, bróðir Nikola, og Samuel Honrubia.

Þeir eru grunaðir um að hafa hagrætt úrslitum í leik í frönsku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili.

Montpellier var þegar búið að tryggja sér franska meistaratitilinn þegar liðið tapaði óvænt fyrir Cesson-Rennes, 31-28, þann 12. maí síðastliðinn. Eiginkonur, kærustur og aðrir ættingjar leikmanna Montpellier eru sagðir hafa hagnast um allt að 40 milljónir króna fyrir að veðja á sigur Cesson-Rennes fyrir leikinn.

Meðal annarra sem voru handteknir í dag voru fimm leikmenn Montpellier - Wissem Hmam, Michael Robin, Dragan Gajic og Primoz Prost auk Nikola Karabatic. Honrubia er í dag leikmaður PSG en hann kom til félagsins frá Montpellier í sumar.

Montpellier hefur unnið franska meistaratitilinn þrettán sinnum á síðustu fimmtán árum og þá er árangur franska landsliðsins undanfarin ár öllum handboltaáhugamönnum vel kunnur.

PSG vann Montpellier örugglega í dag, 38-24. Róbert Gunnarsson skoraði þrjú mörk fyrir PSG en Ásgeir Örn Hallgrímsson komst ekki á blað að þessu sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×